3. október 2024

Sunna frjósemi vinnur nú að innleiðingu á fósturvísisgreiningum en slík þjónusta hefur hingað til ekki verið í boði hér á landi. Með fósturvísisgreiningum gefst kostur á að velja enn betur þá fósturvísa til uppsetningar sem mestar líkur eru á að verði að lífvænlegri þungun. Eins verður mögulegt að greina genagalla í fóstrum sem valdið geta alvarlegum sjúkdómum.

Fósturvísisgreiningar hafa verið nýttar í tæknifrjóvgunarmeðferðum erlendis um langt skeið en fyrsta barnið eftir slíka greiningu fæddist árið 1995. Þar sem þessi þjónusta hefur ekki verið í boði hér á landi hafa einstaklingar og pör sem sækjast eftir henni þurft að leita út fyrir landsteinana með þeim vanköntum og álagi sem því fylgir.

Gríðarleg þróun hefur átt sér stað í fósturvísisgreiningum undanfarin ár en til verksins þarf sérþjálfað starfsfólk og sérhæfðan búnað. Innleiðing á fósturvísisgreiningum hjá Sunnu frjósemi hefst á komandi vikum og má áætla að þær standi fólki til boða í byrjun næsta árs.